Ég heiti Matthías Ásgeirsson. Er giftur Gyðu Ásmundsdóttur viðskiptafræðingi. Við eigum þrjár stelpur.
Ef þú þarft að ná af mér tali er messenger vísunin matthias_asgeirsson hjá hotmail punktur com, ekki senda mér póst á þetta póstfang, ekkert víst að ég sjái hann. Síminn hjá mér er 8600644.
Dagbókin er aðalsíðan á þessum vef. Ég uppfæri hana reglulega með misjafnlega áhugaverðu þvaðri. Sumt af því er illa ígrundað, restin tómt rugl.
Ég fæddist 23. nóvember árið 1973 á Siglufirði, flutti til Reykjavíkur þriggja ára gamall og ólst svo upp í Garðabæ frá fimm ára aldri. Spilaði fótbolta með Stjörnunni til meistaraflokks og spilaði með KS sumarið 93, tók Stúdent í Verzló. Fór í Háskólann og eyddi ári í að læra heimspeki og fleiri árum í tölvunarfræði. Kláraði ekki gráðuna heldur fór að vinna hjá Stefju og líkaði vel. Fór yfir til CCP árið 2000 og var þar til júlí 2003. Hóf störf í hugbúnaðardeild Landsbankans í október 2003 og var þar í eitt og hálft ár, þar til ég færði mig aftur yfir í Stefju sem nú heitir Trackwell í maí 2005. Dundaði mér þar við vefforritun með Python með sérstaka áherslu á bjórdrykkju og pílukast. Skrifaði einnig hugbúnað fyrir Android síma og kerfisforritun (hvað sem það svosem þýðir) í C/C++ - þar sem ég notaði RabbitMQ og Google Protocol Buffers til að útfæra dreifð kerfi.
Fór aftur í skóla og kláraði tölvunarfræði veturinn 2010-2011 og má nú nota titilinn tölvunarfræðingur. Lauk meistaranámi í tölvunarfræði vorið 2015 með ágætiseinkunn (9.33). Lokaverkefnið mitt fjallaði um andlitsgreiningu fyrir stimpilklukkuar.
Í september 2015 færði ég mig svo yfir til Handpoint þar sem ég fékkst við forritun af ýmsu tagi, C, C++, Java, C# og Python. Forritaði fyrir posa og farsíma.
Tveimur árum síðar fór ég að vinna hjá Men&Mice og var þar í fimm ár sem Senior og síðar Lead engineer, að fást við bakendaforritun í C++.
Í janúar 2023 flutti ég mig svo yfir í Treble þar sem ég starfa enn við að forrita hljóðhermun. Gríðarlega spennandi dæmi skal ég segja ykkur.
Ég er tölvudellukarl, finnst gaman að forrita og þykir C++ skemmtilegt forritunarmál. Python er líka í miklu uppáhaldi. Hef áhuga á forritun símtækja og fiktaði dálítið í forritun Android síma.
Er líka með ljósmyndadellu og áhuginn á ljósmyndun hefur stóraukist eftir að ég eignaðist Nikon D70. Í september 2006 uppfærði ég svo í D200 og svo toppaði ég vitleysuna með því að kaupa Nikon D700 haustið 2008. Þetta fór svo út í algjöra vitleysu þegar ég eignaðist D810 í lok árs 2014. Er ekkert sérlega fær en er þó sífellt að læra eitthvað. Á myndasíðunni er slatti af myndum, mest af fjölskyldunni. Einnig eru nokkrar í myndaflokknum í dagbókinni. Ég dunda mér einnig við að setja myndir á flickr.
Ég er einn stofnenda Vantrúar og var formaður félagsins í tvö ár, varð síðar bara (ansi virkur) óbreyttur félagsmaður í mörg ár en hef síðustu ár neyðst til að taka formennskuna að mér aftur. Margir halda að ég ráði öllu í því félagi en það fólk veit einfaldlega ekki hvernig Vantrú virkar.